145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[15:18]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir það sem ég hef fengið að heyra og þakka þeim sem tóku þátt. Ég fagna því að 100 milljónir verði settar í að mæta þeim samningi sem ég minntist á rétt áður en ég náði að klára ræðu mína. Ég var ekki einu sinni byrjuð að tala um Vatnsmýri eins og allir voru að bíða eftir. [Hlátur í þingsal.] Ég tel hana lykilinn að því að geta með raunhæfum hætti þétt höfuðborgarsvæðið og þar með byggt upp hagkvæmar almenningssamgöngur, svo því sé til haga haldið.

Annars langaði mig að taka undir með bæði hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur og hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um að hvetja þingmenn til að kynna sér almenningssamgöngukerfið á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef sjálf notað strætó talsvert og geri það líka í uppeldislegum tilgangi og fer með syni mína mikið í strætó til þess að kynna þeim þetta fyrirbæri. Ef maður gerir það ekki sjálfur er ekki hægt að ætlast til að börnin manns geri það.

Annað sem ég vildi nefna, sem ég hjó eftir í svörum hæstv. ráðherra, varðandi frestun á framkvæmdum og að ekki mætti hugsa þetta þannig að almenningssamgöngur og framkvæmdir við samgöngumannvirki gætu ekki farið saman. Að einhverju leyti er ég sammála því. Auðvitað þarf nauðsynlegt viðhald gatna og annað að vera í lagi, en fyrir mér er varhugavert að ráðast í miklar byggingar á stærri og meiri mannvirkjum undir bíla. Það eina sem það gerir, og rannsóknir hafa sýnt það, er að fjölga bílum. Ef okkur er alvara að ýta undir breyttar ferðavenjur verðum við að fókusera mjög strategískt og markvisst á uppbyggingu almenningssamgangna.

Annars þakka ég kærlega fyrir þessar umræður. Mig langar í lokin að beina sjónum mínum að ummælum hv. þm. Birgis Ármannssonar sem talaði um veruleikann. Það er nú einu sinni þannig með veruleikann að hann getur breyst og breyst mjög hratt. Það var inntakið sem ég vildi helst að kæmi fram í þessum umræðum.