145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við að þetta mál sé tekið hér á dagskrána eina ferðina enn. Það er ótrúlegt hve margir dagar af starfi þingsins hafa verið lagðir undir þetta ómerkilega þingmál en enn merkilegra að það sé ítrekað gert í fjarveru hæstv. utanríkisráðherra. Það getur auðvitað hentað ráðherra að geta ekki verið við umræðu eða að þurfa að bregða sér frá umræðu en að það gerist aftur og aftur í sömu umræðu um mál að henni sé fram haldið í fjarveru ráðherrans, það er ekki góður bragur á því. Það er miður að þingmenn geta ekki átt orðastað við ráðherrann og réttast auðvitað að bíða þangað til hæstv. utanríkisráðherra getur verið hér við umræðuna sem mér skilst að sé hér síðar í dag. Það eru önnur þingmál á dagskránni sem þarfara væri að sinna í millitíðinni.