145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég geri engar athugasemdir við að hæstv. utanríkisráðherra sinni starfsskyldum sínum á erlendri grundu. Ég geri hins vegar kröfu um viðveru ráðherra, ekki síst í ljósi þess að málið sem hér er á dagskrá er umdeilt. Það sem hefur einkennt umræðu um það er að þeim eðlilegu málefnalegu spurningum, sem lagðar hafa verið fram af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar, er almennt ekki svarað. Það kann að einhverju leyti að skýrast af því að hæstv. utanríkisráðherra hefur lítið verið við umræðuna og aðrir hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa ekki rokið til svara eða tekið til varna í þessu máli. Því tel ég að það sé fullkomlega eðlileg krafa, sem hér er verið að minna á, að hæstv. ráðherra sé við umræðuna.

Ég hefði talið eðlilegt, í ljósi þess að ekkert annað er á dagskrá þessa þingfundar, eins og ég skil það, að gert verði hlé á þingfundi þangað til hæstv. ráðherra getur komið og verið við umræðuna. Við vitum að ekki er málafjölda fyrir að fara hjá ríkisstjórninni og því ætti að vera auðvelt að verða við þeirri beiðni.