145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil árétta það að það var skilningur okkar þingflokksformanna að hæstv. utanríkisráðherra væri kominn þegar þessi umræða byrjaði og því tel ég fullkomlega eðlilegt að fundi verði frestað þar til fyrir liggur hvenær hæstv. utanríkisráðherra komi hingað til starfa á þinginu til að svara fyrir þetta mál sitt. Mér finnst það bara fullkomlega eðlilegt og vil skora á forseta að gera það því að mér finnst hreinlega óeðlilegt að eitt sé sagt — og ef það hefur legið fyrir þá á þeim þingflokksformannafundi að hæstv. ráðherra væri ekki kominn í hús þegar þessi umræða byrjaði, þá hefði að sjálfsögðu átt að setja eitthvert annað mál á dagskrá. Ég óska því eftir að forseti fresti fundi uns hæstv. utanríkisráðherra getur verið hér og tekið þátt í umræðunum og varið sitt mál, sem er vont.