145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:31]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar við vorum í umræðunni hér í síðustu lotu var kallað eftir nærveru ráðherrans sem þá hafði stokkið heim í kjördæmi til að dyljast meðal flokksbræðra sinna á fundum með framsóknarmönnum í kjördæminu og kom aldrei að þeirri umræðu. Í því ljósi er með ólíkindum að málið skuli svo aftur vera sett á dagskrá núna að ráðherranum fjarstöddum.

Eins og hér hefur komið fram hefur fólk rætt þetta málefnalega. Það hafa komið margar spurningar og vangaveltur upp í málinu sem eðlilegt er að ráðherrann svari. Hann er, eins og áður hefur verið sagt, upphaf og endir þessa máls. Hann er upphafsmaðurinn, ber ábyrgð á því og úr því að flokkssystkini hans treysta sér ekki til að standa hér fyrir svörum í hans stað þá er ekki til of mikils ætlast að hann komi hér í eigin persónu og sé viðstaddur.

Ég styð eindregið þá ósk að þessari umræðu verði frestað þar til ráðherrann getur komið hér og staðið fyrir máli sínu.