145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:38]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég flutti ræðu í þessu máli um daginn og meðal þess sem ég fjallaði um var að ég vildi gjarnan eiga orðastað við hæstv. ráðherra. Ég ímynda mér að hann vilji það líka. Þetta er eina frumvarpið sem hann er með á sinni þingmálaskrá. Hann hefur ekkert annað fram að færa, engin önnur mál, engar lagabreytingar aðrar en þær að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og setja undir sig í ráðuneytinu. Það er það sem þetta mál snýst um, að leggja niður heila stofnun og setja hana undir ráðuneyti, setja hana undir ráðherra, til þess að gera hvað? Það kemur ekki fram í málinu. Það er ekki rökstutt nægilega vel til þess að menn geti áttað sig á því. Þess vegna er svo mikilvægt að menn hafi hæstv. ráðherra í þingsal til þess að taka þessa umræðu. Algjört lágmark. Þetta eru ótrúleg og fádæmalaus lélegheit af hæstv. ráðherra. Fádæmalaus lélegheit, pólitísk lélegheit, maður hefur aldrei áður kynnst öðru eins. Ætlar hann aldrei að koma hérna og ræða þetta mál? Ætlar hann að skila þessu eina þingmáli sínu inn í þingið, fara síðan í burtu og vera einhvers staðar annars staðar á meðan það er afgreitt? Ætlar hann ekki að færa rök fyrir máli sínu?