145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Er forseti stoltur af því hvernig verið er að vinna mál í gegnum þingið, að tveir dagar séu milli þess sem umsagnarfrestur líður og þangað til mál er afgreitt út úr nefnd? Teljum við það fagleg vinnubrögð? Finnst okkur það eðlilegt?

Ég verð að segja alveg eins og er að ég átta mig ekki á því hvers vegna við getum ekki fengið hlé þangað til ráðherrann kemur hingað vegna þess að hvorki hann né þeir sem að þessu máli standa í stjórnarmeirihlutanum hafa komið hér upp og svarað spurningum okkar. Eru þá samskipti okkar þingmanna orðin þannig? Hroki og hallærislegheit af hálfu stjórnarmeirihlutans, við getum þetta og þess vegna ætlum við bara að dúndra hlutum í gegn án þess að virða fagleg vinnubrögð og hvað þá að tala við þá sem hafa lýðræðislegt kjör að baki sér og tilheyra núverandi minni hluta í þinginu.

Virðulegi forseti. Menn þurfa að fara að koma niður af sínum háa hesti og taka þátt í störfum þingsins eins og þeir eru kjörnir til.