145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:43]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað alveg með ólíkindum ef það er þannig að hægt sé að leggja niður heila stofnun með áratuga uppsafnaða þekkingu og starfsmannakúltúr á tilteknu, vandmeðförnu mikilvægu málasviði, ef það er hægt að leggja hana niður með ráðherravaldi án þess að ráðherra þurfi svo mikið sem að mæta í þingið til að ræða við þingmenn um aðra eins ákvörðun. Það er ekki farið yfir umsagnir í málinu, eins og hefur komið fram. Ráðherrann er fjarverandi. Þetta er vanvirðing við þingið og þingræðislega meðferð mála hér inni. Þvílík valdníðsla að ætla að leggja niður stofnun með öllu sem því tilheyrir, vanvirða þar með og virða hvorki forstöðumann né starfsmenn stofnunarinnar svo mikils að málið fái eðlilega umfjöllun að viðstöddum ráðherranum í þingsal.