145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki sterka skoðun á þessu tiltekna máli en finnst þó mörgum spurningum ósvarað.

En það sem mér finnst svo skrýtið hér á þingi er hve lítil þátttaka er af hálfu meiri hlutans um mál. Það staðfestir þessa tilfinningu að ríkisstjórnin leggur fram mál sem fara bara í gegnum þingið við atkvæðagreiðslu þegar meiri hlutinn er á græna takkanum. Ef ég væri í meiri hlutanum og tryði á þetta mál þá væri ég hérna eins og brjálæðingur hlaupandi upp í andsvör að sannfæra minni hlutann um að þetta sé gott mál. Þetta ber að gera. En hvar er sannfæringin? Hún er greinilega ekki hér í þessum þingsal.

Ég ætlaði síðan að koma með svona lausnarmiðaða tillögu, um að fyrst hæstv. ráðherra er ekki á svæðinu mundi framsögumaður geta komið í hans stað. Hv. framsögumaður er mættur á svæðið og mun þá væntanlega taka þátt í þessum umræðum því að annað er náttúrlega út í hött.