145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Kæri forseti. Nú hefur það verið upplýst um hæstv. utanríkisráðherra að fætur hans hafi væntanlega numið við fósturjörðina fyrir svona hálftíma. Hann hefur þar af leiðandi tekið yfir embættisskyldur sínar af þeim sem gegndi þeim í hans fjarveru. Hæstv. utanríkisráðherra hlýtur að gleðjast yfir því að hans sé jafn sárt saknað hér og raun ber vitni og flýta sér til fundar við þingið.

Ég er fyrsti maður hér á mælendaskrá og ég hafði mjög ítrekað óskað eftir því, í umræðu um þetta mál í síðustu viku, að ég sem dæmi þyrfti ekki að flytja mína seinni aðalræðu við þessa umræðu fyrr en ég ætti þess kost að fylgja úr hlaði spurningum til hæstv. utanríkisráðherra. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég er svolítið hissa á því að það skuli samt eiga að hefja umræðuna að utanríkisráðherra fjarstöddum og sérstaklega ef það er ekki nema eitthvert mínútuspursmál að hann verði þá kominn hér til fundar.

Ég get því lítið annað gert en að rifja upp það sem ég hef áður beðið um, að hæstv. ráðherra verði kominn hér til umræðunnar áður en við sem eigum eftir ræður í þessu máli verðum látnir halda þær að honum fjarverandi.