145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmenn hafa fært mjög góð rök fyrir þeirri beiðni sinni um að halda umræðunni ekki áfram eða setja málið ekki á dagskrá fyrr en hæstv. utanríkisráðherra er kominn í hús.

Forseti hefur ekki orðið við þeirri beiðni, en ég vil hvetja forseta og hv. formann utanríkismálanefndar að taka vel í tillögu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur áðan um að sest verði niður til að finna lausn á málinu.

Í umræðum í síðustu viku komu fram margar hugmyndir að góðri sátt, meðal annars var talað um að bíða mætti eftir tillögum eða úttekt sem DAC er að gera og er í burðarliðnum. Ég vil taka undir þá ósk og bið forseta um að taka vel í hugmynd hv. þingflokksformanns Vinstri grænna.