145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að hv. þingmaður skuli taka þetta dæmi. Munurinn á þessum tveimur ráðherrum er sá að hæstv. fjármálaráðherra kom í þingið og átti við okkur orðastað um niðurlagningu Bankasýslunnar og færði fyrir því rök. En síðan breyttist það mál í samtali milli þingmanna hér. Það er stóri munurinn.

En mér finnst svo mikilvægt að draga fram í þessari umræðu hvort okkur finnist í alvörunni eðlilegt og til eftirbreytni að mál sé lagt fram að hausti og daginn eftir að umsagnarfresti lýkur sé það tekið til umfjöllunar og daginn þar á eftir sé það rifið út úr nefnd á óeðlilegum tíma, þ.e. ekki á föstum fundartíma. Finnst okkur það til eftirbreytni, sérstaklega í ljósi þess að þriðjungur nefndarmanna er nýr? Í öðru lagi, samkvæmt fundargerðum, og það kom einnig fram í máli hv. þm. Kristjáns L. Möllers áðan, var ekki fjallað um allar umsagnir í nefnd sem bárust um málið. Hvers konar vinnubrögð eru það? En formaður nefndarinnar, nýr í nefndinni, ákveður að það sé allt í lagi. Er það ekki sami einstaklingur og talað hefur fyrir nýjum stjórnmálum, samráði og samtali og breyttum vinnubrögðum? Jú, þetta eru aldeilis breytt vinnubrögð. Ég man ekki eftir svona framkomu áður við þingmenn og þingið. Þá vitum við hvað býr að baki breyttum vinnubrögðum hjá hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, það er að sinna ekki þingskyldu sinni með því að rannsaka til fulls mál og gefa heldur ekki öðrum færi á að fara yfir það með faglegum hætti.

Þingsköp segja: Mál falla niður milli þinga. En hér stóð formaður nefndar í ræðustól og hélt nánast öðru fram. Gæti ekki verið að menn séu hér að (Forseti hringir.) brjóta þingsköp ef miðað er við orð formanns utanríkismálanefndar?