145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Ég ætla að svara seinni spurningunni á undan. Svarið er einfaldlega: Já. Að því marki sem hæstv. ráðherra tekst ekki að flytja fram með svo trúverðugum og öflugum hætti rök í umræðunni í þingsalnum að menn verði sæmilega sáttir við, er að sjálfsögðu eðlilegt að nefndin kalli í hann, ekki síst í ljósi þessara upplýsinga sem eru dæmalausar. Við skulum ætla að þær séu réttar, að ráðherrann hafi brugðist svona við spurningum frá starfsmönnum. Það segir ekki góða sögu. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það gerir mann dálítið tortrygginn, ef menn ætla að vaða áfram með málið í svona hroka um að það þurfi einfaldlega ekki að rökstyðja það. Kannski í og með vegna þess að menn geta það ekki. Menn hafa ekki þau faglegu rök og fara bara fram með valdið eitt að vopni. En valdið liggur reyndar hér, við skulum ekki gleyma því, hv. þingmenn, þetta þarf samþykkis Alþingis við.

Hvað á að vera til staðar áður en menn taka ákvörðun um að sameina stofnun? spyr hv. þingmaður. Ég hef nokkra reynslu af návígi við slíka hluti. Vissulega getur verið að menn velji þann kost ef uppi eru mikil vandamál í rekstri stofnunar, ef hún hefur verið í rekstrarlegum erfiðleikum eða ekki náð markmiðum sínum faglega eða málefnalega. Það eru alltaf tveir kostir í boði við slíkt. Það þarf ekki endilega að leggja stofnun niður en auðvitað verður að grípa til aðgerða gagnvart slíku ástandi inni í stofnuninni eða með einhverjum ráðum. Í þriðja lagi geta verið borðleggjandi hagkvæmnisrök. Þau hef ég oft séð um dagana. Breytt tækni, nýjar aðstæður, gera að verkum að hægt er að ná fram verulegum samlegðaráhrifum með því til dæmis að sameina einingar í starfsemi á einhverju sviði undir einn hatt. Ég get nefnt sameiningu skattumdæmanna í landinu sem góð dæmi um það. En það á að byggja á fyrirframgreiningu sem liggur fyrir (Forseti hringir.) og er trúverðug samkvæmt þeim handbókum sem á að vinna eftir. Það er ekki þannig í þessu tilviki. Þvert á móti hið gagnstæða. Sennilega eru engin hagkvæmnisrök sem halda vatni í þessu máli.