145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og yfirferð um þetta mál. Hún kom meðal annars inn á það í máli sínu að stefnumótun í málaflokkum eins og við erum að ræða, þróunarsamvinnu, ætti að vera á hendi stjórnvalda og framkvæmdin á hendi faglegra aðila innan stofnana. Mig langar að undirstrika það aðeins betur. Ég er alveg hjartanlega sammála því að þetta er afturför, alvarleg skref sem verið er að stíga. Hvað þá með gegnsæi? Hvernig er hægt að sjá hvernig fjármunum skattborgara er varið til þessa mikilvæga málaflokks? Er ekki hætt við að það blandist með einum eða öðrum hætti við aðra starfsemi utanríkisráðuneytisins? Menn hafa goldið varhuga við því að blanda í þetta mál viðskiptahagsmunum Íslendinga, sem eigi alls ekki að vera þar á ferðinni og ætti að halda til hliðar. Þetta eigi fyrst og fremst og eingöngu að vera vinna með þessum þróunarlöndum, til að hjálpa þeim til sjálfsbjargar. Mig langar að heyra aðeins frekar um þetta.

Það kemur fram í greinargerð frumvarpsins að lögð sé áhersla á að styrkja tengsl milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Telur hv. þingmaður að þar hafi einhvern skugga borið á hingað til? Að þetta hafi verið til vandræða og árekstrar þarna á milli og það hafi önnur stefna verið höfð uppi í þróunarsamvinnu en í utanríkismálum?