145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:50]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvar þingmannsins. Það hefur hvergi komið fram í þessu máli að neinn skugga hafi borið á, að Þróunarsamvinnustofnun hafi á nokkurn hátt starfað í mótsögn við stefnu stjórnvalda. Það hefur mér vitanlega hvergi komið fram opinberlega í málinu.

Þess vegna finnst mér mjög einkennilegt að talað sé um að styrkja tengsl milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Ef menn vilja ganga lengra í því, eins og ég nefndi í ræðu minni, er komin hætta á að verið sé að blanda saman óskyldum hagsmunum og markmiðum.

Eitt er þróunarsamvinna. Annað eru til dæmis viðskiptahagsmunir landa. Það er mjög óheilbrigt ef menn ætla að fara að reka þróunarsamvinnu í einhverju samkrulli eða samhengi við aðra óskylda hagsmuni viðkomandi ríkis. Viðfangið er auðvitað þróunarsamvinnan sjálf, þau lönd sem á þeirri aðstoð og samvinnu þurfa að halda. Ég mundi halda að það væri mjög óheppilegt að vera að óska eftir einhverjum ríkari tengslum þarna á milli. Það getur þvert á móti leitt til þess sem ég kalla pólitíska mengun, að verið sé pólitískt að menga þróunarsamvinnuna sem má ekki við því.

Eins og þingmaður kom inn á og ég nefndi í ræðu minni á stefnumótunin að eiga sér stað á þessum vettvangi, í ranni stjórnvalda. Hins vegar framkvæma stofnanirnar síðan stefnuna og fá að gæða þær fagáherslum. Það er mjög mikilvægt að stofnanir fái svigrúm til að koma með faglegar áherslur inn í þá málaflokka sem þeim er trúað fyrir.