145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta og þakka líka hv. þingmanni fyrir að hafa vakið athygli á þessu fyrr í dag. Mér finnst þetta sýna allan málatilbúnað málsins býsna vel og hvað vakir í raun fyrir fólki í þessu efni. Það átti aldrei að tala við nokkurn mann um þetta, það átti bara að gera þetta.

Ég held að það hafi verið Olof Palme sem sagði að lýðræðið væri vesen, og það er samráð líka. Þau nenna kannski ekki þessu veseni að hafa samráð við fólk og ástunda fagleg vinnubrögð, sem eru líka örugglega óttalegt vesen.

En þetta þing hefur þó ástundað góð vinnubrögð. Þó að gagnrýna megi okkur fyrir margt hafa þó fagleg vinnubrögð verið viðhöfð hér. Þeir sem senda inn umsagnir, þeir sem hafa eitthvað um málin að segja, hafa hingað til fengið að koma sjónarmiðum sínum að. En það var ekki gert í þessu tilfelli.

Við sem höfum verið nefndarformenn höfum allflest, með einhverjum undantekningum, orðið við því ef nefndarmenn hafa óskað eftir því að gestir væru boðaðir til fundarins. Ég sit núna í umhverfis- og samgöngunefnd og þar er undantekningalaust orðið við því í hvaða máli sem er. Þá getum við líka bætt við og óskað eftir frekari upplýsingum eða umsögnum af því að við erum þingmenn á Alþingi og sitjum í umboði kjósenda og eigum rétt á því að fá að þaulkanna mál.

En í þessu tilfelli var ekki einu sinni klórað í yfirborðið. Megi þær þingkonur sem stóðu fyrir þessu, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, hafa skömm fyrir hvernig unnið hefur verið í þessu máli. Svona vinnur maður ekki og ég vil ekki að trúa því að forseti láti þetta óátalið.