145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er auðvitað orðin mikil vanvirðing við þingið, þ.e. hvernig hæstv. utanríkisráðherra kemur fram við það. Segjast verður eins og er að maður trúði því hjá hæstv. forseta að utanríkisráðherra mundi skila sér hingað eftir að hann kæmi frá útlöndum. Hann er auðvitað mikið þar í nafni embættis síns og er svo að flandra eitthvað um kjördæmið þess á milli til að hitta sína framsóknarmenn. En hvað veldur því að hann er ekki enn þá kominn? Ég ætlaði að reyna að vera jákvæð og hugsaði: Kannski hefur sprungið á ráðherrabílnum, kannski gæti það verið skýringin og við gætum sýnt því einhvern skilning. En þau skilaboð hafa ekki komið. Hvað er að gerast?

Ég vil segja enn og aftur, við þingmenn getum ekki liðið svona vanvirðingu lengur (Forseti hringir.) við þingið. Ég tel að hæstv. forsætisnefnd (Forseti hringir.) eigi að koma saman, og það verður að veita hæstv. ráðherra tiltal um þetta mál. Þetta er grafalvarlegt.