145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ákvæði þingskapa um að þingmál renni út við þinglausnir og að leggja þurfi þau fram að nýju er til þess að þau séu betur unnin. Það er góðra ráðherra siður að taka við endurframlagningu máls tillit til þess sem fór fram í umræðum á fyrra þingi, reyna í greinargerð til dæmis að svara þeim athugasemdum sem komið hafa fram í umræðum og í álitum minni hluta, fara yfir þær athugasemdir lið fyrir lið og gæta þess að þeim sé svarað og vikið að þeim í greinargerðinni. Það er hvergi gert. Engin tilraun er gerð til þess í greinargerðinni að mæta eða svara þeim athugasemdum sem komu fram við umræður og meðferð málsins í þinginu á síðasta þingi. Og ekki heldur í meirihlutaálitinu, enda var fljótaskriftin á því náttúrlega slík að ekki gafst tími til að víkja þar að nokkrum sköpuðum hlut. Það er þessi (Forseti hringir.) vanvirðing gagnvart þinginu og þingræðinu og réttum framgangi mála í þinginu sem er ólíðandi og óásættanleg. Það hlýtur (Forseti hringir.) að verða að krefjast þess að ráðherra sem hefur ekki lögmæt forföll í (Forseti hringir.) dag, hann er ekki með skráða fjarvist í dag, komi hingað til þings.