145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Allir gera mistök og ég tel að hv. þingmaður, formaður utanríkismálanefndar, hafi gert mistök, en menn læra af þeim. Ég tel þó að þau hafi ekki verið jafn slæm og mistök hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttir þegar hún stýrði fundi í fjarveru hennar daginn eftir þar sem ljóst var að átti að láta kné fylgja kviði. En bara til þess að rifja upp staðreyndir máls fyrir hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni þá var það samt þannig að á þeim fundi sem haldinn var í lok umsagnarfrests lýsti formaður utanríkismálanefndar því yfir í heyranda hljóði að áform hennar væru að taka málið út á þeim hinum sama fundi. Það átti sem sagt að leyfa einn fund til umræðu. Það var ekki fyrr en þingmenn stjórnarandstöðunnar í krafti þingskapalaga gátu bent á að þeir hefðu rétt til þess að kalla menn til fundar ef fram kæmi skrifleg beiðni, sem það fékkst. En á næsta fundi var síðan talið að þar hefði verið um einhvern sérstakan (Forseti hringir.) refjahátt að ræða og fláttskap af okkar hálfu. Að sjálfsögðu ekki. Við höfðum þetta skjól, nýttum það. (Forseti hringir.) Við hefðum hugsanlega getað farið sömu leið til þess að krefjast þess að fá alla þá sem við vildum, en við freistuðum samkomulags. Þetta (Forseti hringir.) er þó ekki aðalmálið í dag, heldur það að við þurfum að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um tiltekin mál.