145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er alltaf góð tilfinning að vita að manns sé saknað og að fólk sé spennt að sjá mann. Sú umræða sem hefur farið fram hér í býsna langan tíma er ekkert ósvipuð umræðunni sem fór fram við 1. umr. síðastliðinn vetur og 1. umr. núna aftur í haust. Hér er mikill misskilningur á ferðinni með sum mál sem mér er ljúft og skylt að fara aftur yfir, enn og aftur reyndar í sumum tilfellum þar sem bent hefur verið á flest af þessu áður eða spurt um og ég held að ég hafi svarað þessu langflestu áður, öllu saman sem hér hefur komið fram.

Varðandi það sem …(Gripið fram í.) Fyrirgefðu, hv. þingmaður, ert þú með ræðu eða ég? Er hv. þm. Kristján Möller með ræðu?

(Forseti (SJS): Nei, hæstv. ráðherra hefur orðið.)

Hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi hér eitt mál, sem er reyndar búið að svara áður, varðandi eftirlitið. Þetta frumvarp er frumvarp til breytinga á gildandi lögum. Þar af leiðir að sú grein sem fjallar um eftirlitið í gömlu lögunum er óbreytt nema að því leytinu til að orðalag breytist. Það hljóðar í rauninni þannig að í stað þess að vera áætlun til fjögurra ára er stefna til fimm ára og aðgerðaáætlun til tveggja ára í senn. Þetta er eina orðalagsbreytingin sem verður á þessari grein. Eftirlitið eins og stendur í lögunum frá 2005 er óbreytt samkvæmt þessari tillögu.

Að öðrum vangaveltum. Enn og aftur hefur verið spurt töluvert um jafningjarýni DAC og hvers vegna ekki megi bíða eftir henni. Ég spyr hreinlega: Hvers vegna þarf að bíða eftir DAC þegar gerð hefur verið úttekt á stjórnskipulagi og lagaramma alþjóðlegrar þróunarsamvinnu á Íslandi? Það var gert í árslok 2012 og í niðurstöðu þeirrar úttektar kom DAC með þá tillögu að við skyldum skoða einmitt þetta fyrirkomulag. Það var ein af tillögunum frá DAC og er akkúrat það sem við gerðum.

Mig langar líka að leiðrétta þann misskilning sem birst hefur í máli þingmanna að DAC muni koma fram með einhverja tillögu að skipulagi við þróunarsamvinnu. Það gerir DAC ekki. Þessi nefnd hefur hins vegar það hlutverk að fara yfir og koma með tillögur um atriði til úrbóta. Ef nefndin telur einhverju ábótavant kemur hún með tillögur til úrbóta líkt og hún gerði 2012. Ef ég man rétt, ég ætla að hafa smáfyrirvara á því, var ekki gert ráð fyrir að sú úttekt sem fyrirhuguð er yrði tilbúin fyrr en árið 2017. Ég ítreka enn og aftur að það er ekki eftir neinu að bíða varðandi þetta.

Hér hefur líka verið spurt hvort það sé til bóta að hafa einn ábyrgðaraðila. Menn drógu einhvern veginn í ósköpunum Vegagerðina inn í þá umræðu sem er algerlega óskiljanlegt. Vitanlega er mikill munur á þessu tvennu. Menn gleyma því að 60% framlaga í dag til þróunarsamvinnu eru í utanríkisráðuneytinu. 40% fara til ÞSSÍ en 60% eru í utanríkisráðuneytinu. Það að líkja þessu við Vegagerðina er mjög langsótt sem sýnir líka að utanríkisráðuneytið er á fullu í þróunarsamvinnu. Þar hefur safnast upp mikil þekking og reynsla í gegnum árin og ráðuneytið hefur svo sannarlega ekki staðið sig verr en ÞSSÍ þegar kemur að því sem heyrir undir ráðuneytið.

Það sem ráðuneytið er að gera í dag er ekkert andstætt því sem ÞSSÍ gerir. Það eru ekki nein átök varðandi þetta, alls ekki neitt slíkt. Síðan eru menn að velta fyrir sér hvort það sé einhver annar hugsunarháttur og aðferðafræði. Það er ekki þannig. Menn hafa líka velt fyrir sér hvort þetta geti átt heima í hinni svokölluðu diplómasíu. Það hefur gengið ágætlega hjá ráðuneytinu, sem er þá þessi diplómasía, að starfa innan málaflokksins sem er þróunarsamvinna með 60% af fénu í þá liði sem þar eru. Síðan má líka spyrja sig af hverju Íslendingar geti ekki gert það þá líka ef danska og finnska diplómasían getur það, svo dæmi sé tekið. Þetta finnst mér ekki eiga við nein rök að styðjast.

Síðan er líka spurt um óskyld verkefni sem ég kem kannski aðeins að síðar. Þróunarsamvinna ein og sér getur ekki alltaf tekist á við öll verkin. Það þarf oft og tíðum að blanda inn í það utanríkisþjónustu eða öðrum verkefnum. Ég kem aftur að því á eftir að ekki eru fyrirhugaðar neinar breytingar á stefnunni, t.d. hvernig við erum að vinna í tvíhliða þróunarsamvinnu.

Við verðum líka að vera reiðubúin að hlusta. Það er kallað eftir því hjá sumum kollegum mínum þegar við erum að ræða þróunarmálin hvort við getum aðstoðað — menn eru mjög fegnir og þakklátir fyrir þá aðstoð sem við höfum veitt sem ÞSSÍ veitir til dæmis og svo ráðuneytið í gegnum Alþjóðabankann og slíkar stofnanir. Eitt sem hefur verið áberandi undanfarið er að við erum töluvert beðin um að aðstoða ef við getum við lagaumgjörð, semja lög um náttúruauðlindir, nýtingu þeirra o.s.frv. Það er greinilega að verða mikill áhugi, a.m.k. hjá sumum, á að bæta slíka umgjörð.

Síðan var spurt um valddreifingu og sagt að þróunarsamvinnunefndin, DAC, hefði hrósað ÞSSÍ. Það er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum hvað varðar til dæmis valdheimildir umdæmisskrifstofa. Það er ekki gert ráð fyrir þeim breytingum að hlutverk þeirra verði annað en það er í dag svo dæmi sé tekið þegar kemur að umsýslu með það sem DAC fjallaði meðal annars um í þessu tilfelli.

Hér hefur afgreiðsla utanríkismálanefndar líka verið gagnrýnd sem ég held að formaður utanríkismálanefndar hafi svarað bara ljómandi vel.

Síðan hefur verið rætt um athugasemdir frá Gagnsæi. Ég tel líka mikilvægt að halda því til haga að ef ég veit rétt kom þetta apparat, Gagnsæi, ekki með formlega umsögn til nefndarinnar, heldur var þetta birt einhvers staðar, á Facebook einhvers staðar, netinu, eitthvað svoleiðis. Hins vegar eru rangfærslur í athugasemdum Gagnsæis sem ég ætla stuttlega að benda á. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Eftir að utanríkisráðuneytið yfirtekur ÞSSÍ munu öll framlög íslenskra skattgreiðenda til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu lenda í „einum potti“ innan ráðuneytisins.“

Þetta er einfaldlega rangt, þetta er ekki rétt. Eins og þingmenn vita væntanlega ákvarðar Alþingi fjárlög hvers árs, þar með talin framlög til þróunarsamvinnu sem skiptast í nokkra fjárlagaliði. Þeim er raðað niður í fjárlögum. Þetta er ekki bara einhver pottur sem hægt er að „víla og díla“ með. Þá telja samtökin að erfiðara verði að fylgjast með því sem gerist innan ráðuneyta, innan undirstofnana þeirra þar sem það sé til dæmis fáheyrt að Ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluúttekt á ráðuneyti. Það er ekki rétt. Ríkisendurskoðun hefur nákvæmlega sömu heimildir til að fylgjast með ráðuneytum og þar með að gera stjórnsýsluúttektir á starfsemi ráðuneyta og undirstofnana þeirra. Ég held að það sé ekkert langt síðan Ríkisendurskoðun skoðaði einmitt sendiráð okkar Íslendinga eða eitthvað slíkt. Við vorum að minnsta kosti að svara og komum að sjálfsögðu mjög vel út.

Til upprifjunar les ég þetta af heimasíðu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun kannar meðferð og nýtingu almannafjár og bendir á leiðir til að bæta þessa þætti, samkvæmt 9. gr. laga um stofnunina. Verkefnið kallast stjórnsýsluendurskoðun og er í raun mat á frammistöðu ráðuneyta, stofnana“ o.s.frv.

Síðan hafa nokkrir talað eitthvað um að starfsmenn UTN séu generalistar, alltaf notað það orð, geti ekki farið í málaflokkinn eins og ÞSSÍ gerir. Væntanlega er hér átt við að þekking tapist, sérfræðiþekking, eitthvað þess háttar. Þetta er vitanlega ekki rétt því að innan ráðuneytisins starfa á þróunarsamvinnuskrifstofu sérfræðingar á sviði þróunarsamvinnu. Þar fyrir utan er búið að taka fram að sérstaklega verður gætt að því að viðhalda þeirri stofnanaþekkingu og sérfræðiþekkingu sem byggst hefur upp innan ÞSSÍ. Ég hef margítrekað í þessum stól að sérstaklega verði gætt að því að þessi þekking tapist ekki.

Það er einmitt sérstaklega mikilvægt að hafa í huga að þekking glatist ekki þegar starfsmenn eru til dæmis flutningsskyldir. Ég hef sagt að enginn starfsmaður ÞSSÍ verði píndur til að verða flutningsskyldur. Við munum heldur ekki standa í vegi fyrir að starfsmenn fari í slíkt púkk ef þeir vilja það. Við þurfum að vinna úr þessu.

Aðrar þjóðir hafa nýlega þurft að takast á við hið sama, t.d. Kanadamenn. Þar sameinaðist þróunarstofnun ráðuneyti fyrir tveimur árum. Við munum horfa til og reyna að nýta okkur reynslu annarra til að þetta gangi allt sem best og verði gert með sem bestum hætti.

Eitthvað var fjallað líka um að verið væri að auka ógegnsæi, að ekki væru gerðar margar úttektir á starfi Háskóla Sameinuðu þjóðanna og friðargæslunnar sem sýnir fram á árangur. Ég veit ekki alveg af hverju þetta blandast hér inn, en það eru gerðar úttektir á fjölþjóðlegum verkefnum sem Ísland vinnur að og veitir stuðning, enda er sjálfsagður þáttur af öllum verkefnum að það sé gert. Þessa dagana er verið að vinna úttekt á Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og undirbúningsvinnan er í fullum gangi.

Síðan hefur verið sagt að með því að færa verkefni ÞSSÍ fari starfið meira að snúast um hagsmuni Íslands í stað þess að snúast um hagsmuni fátæka fólksins í heiminum. Mér finnst þetta mjög langsótt og ég minni þingmenn á að það er unnið samkvæmt þingsályktun um alþjóðaþróunarsamvinnu Íslands sem Alþingi fær til meðferðar og samþykkir. Þar eru lagðar línurnar í þessu starfi. Alþingi er alltaf að fjalla um þessa stefnu þannig að Alþingi getur haft skoðun á því hvort stefnan eigi að snúast um fátæka fólkið eða hagsmuni Íslands. Ég geri ráð fyrir að flest okkar viljum láta það snúast um að við náum árangri í þeim verkefnum sem við erum að vinna að á vettvangi.

Síðan var því velt upp hvernig friðargæsla eigi samleið með þróunarsamvinnu og hvernig friðargæsla efli leikskólastig á Malaví og eitthvað svona. Þetta er allsérstök nálgun að mínum dómi, en til að hafa það alveg á hreinu er í samræmi við þróunarsamvinnuáætlun lögð áhersla á þrjú meginsvið, uppbyggingu félagslegra innviða, sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og starf í þágu friðar. Þetta er einn af þeim þrem meginþáttum sem áhersla er lögð á. Við vitum alveg að friður, öryggi og þróun er allt saman nátengt. Ef við náum að stuðla að friði einhvers staðar vitum við að það svæði eða það land á miklu meiri möguleika á að þróast og eflast. Það er ekki hægt að segja að friður og þróunarstarfsemi sé algjörlega aðskilið. Friðvænlegt umhverfi er mjög mikilvægt til langs tíma. Að sama skapi getur veikt stjórnarfar, stöðnun, óvissa og skortur á umhverfi til að vinna í leitt til þess að okkur gangi illa í þróunarstarfsemi. Þetta er allt tengt og eitt útilokar ekki annað í þessu.

Hér hefur líka verið gagnrýnt að þingmenn muni eiga sæti í þróunarsamvinnunefnd, ekki fulltrúar þingsins eins og nú er. Hugmyndin með því er að styrkja aðkomu þingsins án þess að hafa sérstaka þingnefnd til að fjalla um þetta mál. Stundum hefur verið kallað eftir því að þingið hafi meiri aðkomu að þessum málum og þarna er reynt að bregðast við því. Svipað fyrirkomulag hefur verið í Finnlandi, það er líka rétt að minna á það.

Mér finnst algjörlega með ólíkindum að sú umræða hafi farið af stað í þingsal að málið lykti af einhvers konar hefndarhug gegn starfsmönnum ÞSSÍ. Það er alveg svakalegt að þingmenn skuli láta það út úr sér í ræðustól að ráðuneytið og ráðherrann fari fram með svona mál til að ná sér niðri á fólki. Þessi umræða er að mínu viti þeim til skammar sem hafa sett þetta hér fram. Ég hef ekkert nema gott um starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar að segja. Til að ítreka það enn og aftur er einmitt forstöðumaður þeirrar ágætu stofnunar í þeim hópi sem vinnur að sameiningu þessara stofnana. Ég sagði í þessum ræðustól að mínu eigin frumkvæði, af því að um það var ekki spurt en hins vegar ýjað að alls konar undarlegum hlutum, að ekki væri útilokað að sá ágæti starfsmaður — raunar mjög líklegt og ég geri ráð fyrir að við munum reyna að nýta okkur áfram starfskrafta hans enda er þar mikil þekking á ferðinni. (KLM: Reyna?) Ég bið hv. þingmann að lesa svarið sem ég gaf síðast. (KLM: … að reyna það.)

Hv. þingmaður er enn að biðja um orðið, forseti, Kristján L. Möller, hann …

(Forseti (SJS): Hljóð í salnum.)

Hann ætti sem einn af varaforsetum Alþingis að vera kunnugur þeim leikreglum sem eru í salnum og vera ekki að (Gripið fram í.) gjamma fram í, en það er kannski hans helsta framlag í þessu máli.

Ég sagði að fyrrverandi starfsmanni eða þessum ágæta manni stæði til boða að vinna með okkur áfram, það væri þannig, en það yrðu sjálfsagt einhver afmörkuð verkefni. Við höldum ekki áfram með starfið til fimm ára í senn. En gleymið því ekki að þetta starf er eina starfið þarna sem er skipað í til fimm ára. Það eru bara leikreglur sem menn vinna eftir og skipunartíminn er einfaldlega að renna út.

Það að tala um hefndarhug er mjög undarlegt. Ég hef svolítið velt fyrir mér, og mun kannski reyna að velta því áfram fyrir mér, hvers vegna þessi umræða á sér stað. Hvers vegna er hér í þingsal svona mikil áhersla, sérstaklega frá tveim, þrem þingmönnum, á að forstöðumaðurinn eigi einhvern veginn undir högg að sækja? Ég átta mig ekki alveg á því af hverju það er.

Síðan hefur verið talað um hagsmunaárekstra, að Þórir Guðmundsson skýrsluhöfundur hafi hagsmuna að gæta. Þórir var fenginn í þetta verk vegna þess að hann hefur mjög langa reynslu og yfirgripsmikla þekkingu á bæði hjálparstarfi og þróunarmálum.

Hérna voru embættismönnum líka gerðar upp einhverjar skrýtnar skoðanir, að embættismenn réðu ferð. Þeir geta því miður ekki staðið hér og varið sig. Það er mjög lágt ris á þeim mönnum sem hafa sagt slíkt í ræðustól, kennt embættismönnunum um þetta allt saman. Það er ráðherrann sem ber ábyrgð á þessu, það er ráðherrann sem ákvað að fara í þá vegferð að láta kanna kosti varðandi framtíðarmúsík í þróunarsamvinnu, bregðast við ábendingum DAC o.s.frv., ekki embættismenn ráðuneytisins. Þeir hvorki ákváðu það né lögðu það sérstaklega til þannig að ég ætla ekki að eyða meira púðri í það bull allt saman.

Síðan var talað um að frumvarpið væri runnið undan rifjum hagræðingarhópsins. Það er ekki rétt. (BjG: Hann segir það.) Segir hann það? Við skulum bara fagna því ef þetta er frá honum komið. Ég held að hann hafi hins vegar hvatt okkur til þess að skoða þróunarsamvinnuna eins og allt annað. En það er algjörlega (Gripið fram í.) ljóst hver ber ábyrgð á þessu.

Hér hafa menn talað um hrossakaup og ekki raunverulegan stuðning. Mál þetta var samþykkt í ríkisstjórn af báðum stjórnarflokkunum þannig að það þarf ekki að efast um góðan stuðning við þetta ágæta mál.

Hér hafa svo heyrst alls konar dylgjur um að það eigi að láta málaflokkinn fjara út, draga úr þróunaraðstoð o.s.frv. Það er rangt. Það er talað um að það eigi að seilast í fjármagn ÞSSÍ sem er að sjálfsögðu líka rangt. Ástæðurnar fyrir þessu eru einfaldlega faglegs eðlis. Við teljum að við náum út betri þróunarsamvinnu með því að gera þetta með þessum hætti. Það er það sem kemur meðal annars út í þeirri skýrslu sem Þórir Guðmundsson vann.

Eins og ég sagði áðan er fjármagnið bundið með ákveðnum hætti. Alþingi kemur að sjálfsögðu áfram að því að móta áherslur hvað varðar skiptingu framlaganna o.s.frv.

Ég held að ég láti þetta duga. Þetta eru flest atriði sem hafa komið fram áður, sem hefur verið spurt um áður og bent á og þeim hefur verið svarað. Þeim var svarað í fyrravetur og einnig við 1. umr. Ég vona þó að sjálfsögðu að menn haldi áfram þessari efnislegu, yfirgripsmiklu og góðu umræðu.