145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:49]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að hæstv. ráðherra er nú loksins kominn í þingsal til að svara spurningum og taka þessa umræðu við okkur þingmenn. Við höfum saknað hans í þessari umræðu.

Ráðherrann hefur ekki í ræðu sinni svarað því sem er í raun spurningin sem vakir í loftinu og er algjörlega ósvarað: Til hvers er verið að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands?

Það kemur fram í fylgigögnum að enginn sparnaður er af þessari ráðstöfun, það er engin pólitísk nauðsyn. Ekki hafa komið fram neinar ábendingar um óhagræði, tvíverknað eða annað sem þó er nefnt meðal ástæðna þess að farið er í þessa vegferð.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Til hvers? Það þarf ekki að svara því nema kannski bara í einni setningu. Hver er ávinningurinn af því að leggja niður þessa rótgrónu stofnun?