145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu og greinargerð með því kemur ágætlega fram hvers vegna farið er í þennan leiðangur. Til að rifja það upp þá er það meðal annars gert til þess að við nýtum betur allt það starfsfólk sem við erum með, bæði í ÞSSÍ og innan ráðuneytisins, þar eru sérfræðingar á báðum stöðum. Við aukum þekkingu á báðum stöðum með því að fara þessa leið. Við erum líka að bregðast við því sem við höfum séð flestar aðrar þjóðir gera til þess einmitt að geta fengið meiri kraft í þróunarsamvinnu.

Við erum að þessu til þess að bæta þróunarsamvinnu. Við erum ekki að þessu til þess að gera neitt annað með þessu móti. Yfirsýn verður betri að okkar mati. Hún verður betri yfir fjármunum, hún verður betri yfir skipulag. Og allt þetta teljum við að muni á endanum bæta þá starfsemi sem við erum almennt með í þróunarmálum í dag.

Það er alveg rétt að sparnaður er ekki ástæðan fyrir því að við förum í þennan leiðangur. Það er ekki hvatinn, enda hefur það margoft komið fram í máli mínu að það er ekki það sem rekur okkur áfram, heldur einfaldlega betra skipulag og vonandi betri þróunarsamvinna.