145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:52]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg auðheyrt á svari ráðherrans að hann veit ekki, hann hefur ekki svör við því, hvers vegna hann ætlar að fara í þessa vegferð. Hann talar um hagræðingarrök og að nýta betur fjármuni og mannafla og auka þekkingu. Samt á ekki að breyta í neinu markmiðum, stefnumótun eða verklagi stofnunarinnar samkvæmt frumvarpinu og hans eigin orðum í því. Það á ekki að breyta neinu, en samt telur hann að það muni hafa áhrif til góðs að breyta þessu án þess að hann geti svarað því á hvern hátt.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Það er talað um það í greinargerð með frumvarpinu að styrkja tengsl þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Hvað á ráðherrann við með því? Ég lýsti því í ræðu minni að þarna væri hætta á pólitískri mengun. Hann sagði í sinni ræðu að hann teldi það langsótt að hafa uppi efasemdir um þetta samkrull milli utanríkismála og þróunarsamvinnu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er það þá sem þarf að styrkja, á hvern hátt þarf að styrkja tengsl þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála?