145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:56]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Við erum með einn aðila sem segir: Já, það er mögulega besta lausnin að færa þetta yfir á einn stað. Hins vegar eru skiptar skoðanir um þetta. Meðal annars segir í skýrslu Þóris Guðmundssonar um athugasemdir frá ÞSSÍ að það séu þrír kostir, í fyrsta lagi að færa stofnunina inn í utanríkisráðuneytið, í öðru lagi að halda núverandi fyrirkomulagi og í þriðja lagi að færa málaflokkinn alfarið til stofnunarinnar, en þau gagnrýna að með því að færa stofnunina inn í ráðuneytið alfarið þá minnki gagnsæi og ráðuneytið hafi eftirlit með sjálfu sér með því að færa ÞSSÍ þar inn.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort um góða stjórnsýslu er að ræða þegar við erum að færa stofnun inn í ráðuneyti þar sem ráðuneytið á allt í einu að hafa eftirlit með sjálfu sér. Er ekki betra að ráðuneytið reyni að hafa eftirlit með einhverjum öðrum stofnunum og þingið sömuleiðis en að færa þetta allt saman á einn stað?