145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra sagði að við vildum bæta þróunarsamvinnu. Það er væntanlega það sem honum gengur til samkvæmt orðum hans. Gott og vel. Ég held að allir hérna inni vilji bæta þróunarsamvinnu. Hins vegar er ágreiningur um hvernig að því skuli staðið. Í margumræddri skýrslu frá Þóri Guðmundssyni lendir hann ekki á þeirri einu niðurstöðu að þetta frumvarp sé lausnin. Hann kemur með þrjár tillögur. Ein tillagan er vissulega sú að Þróunarsamvinnustofnun renni inn í utanríkisráðuneytið og verði hluti af þróunarsamvinnuskrifstofu, í öðru lagi að skipulagið verði óbreytt að mestu en ákveðinn tilflutningur verkefna yrði milli ÞSSÍ og ráðuneytisins og stofnunin tæki þar á meðal við öllum tvíhliða verkefnum en árangursmat og eftirlit yrði eftir hjá utanríkisráðuneytinu, í þriðja lagi tæki ÞSSÍ við flestum helstu hlutverkum þróunarsamvinnuskrifstofu sem yrði lögð niður en stefnumótun yrði verkefni alþjóða- og öryggisskrifstofu ráðuneytisins.

Ég velti fyrir mér hvort hæstv. utanríkisráðherra hafi skoðað hina kostina til hlítar og hvort hann geti veitt rökstuðning fyrir því hvers vegna hinar leiðirnar voru ekki farnar í ljósi þess að það er ágreiningur um þessa leið.