145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í samræmi við minn skilning á því sem ég heyrði Þóri Guðmundsson segja á nefndarfundi, kannski misskildi ég hann, en eins og ég skildi hann þá leit hann svo á að hinir kostirnir væru alveg jafn líklegir til árangurs og það væri ekkert því til fyrirstöðu að velja þá frekar en þennan.

Nú get ég bent á að annar kostur er nefndur í skýrslunni, sem ég trúi ekki að hæstv. utanríkisráðherra trúi að yrði jafn umdeildur, og það er að skipulagið haldist óbreytt að mestu en ákveðin tilflutningur verkefna yrði milli ÞSSÍ og ráðuneytisins, þar á meðal tæki stofnunin við öllum tvíhliða verkefnum en árangursmat og eftirlit yrði eftir hjá utanríkisráðuneyti. Þetta yrði varla til þess að stífla þingstörf heillengi, það efast ég um.

Sömuleiðis þætti mér vænt um að heyra eitthvað um það hvers vegna þessar leiðir eru ekki farnar. Ef rökstuðningurinn er einfaldlega sá að Þórir Guðmundsson hafi komist að þessari niðurstöðu þá er verið að hunsa alla umræðuna sem kemur í kjölfarið. Það hlýtur að þurfa að svara því hvers vegna er ekki farin sú leið sem er mýkri, minna umdeild og samkvæmt þeim skilningi sem ég hafði á þessu alveg jafn líkleg til árangurs.