145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrst ráðherrann er kominn í hús þá langar mig til að leggja til að forseti stuðli að því að samtal eigi sér stað um mögulega lendingu í þessu máli, um það hvernig eigi að halda áfram með það. Það er ekki boðlegt að fjalla um málið með þeim hætti sem hér hefur verið gerð grein fyrir, að umsagnarfresti ljúki, daginn eftir sé málið tekið til umræðu og boðað að það verði tekið út á fundi daginn eftir. Þetta er bara húmbúkk, það er ekki í boði að vinna með þessum hætti. Ég held að ráðherrann geti ekki verið ánægður með að þannig sé farið með hans mál í gegnum þingið og þannig séu þau keyrð inn í ófriðarástand.

Ég vil því heyra frá forseta hvort það sé ekki möguleiki að við notum nú tækifærið, þegar ráðherrann er loksins kominn hingað, og reynum að setjast yfir þetta og finna einhverja lendingu í því. Það væri skrýtið að taka ekki í þá hönd sem hér hefur ítrekað verið rétt út af hálfu stjórnarandstöðuþingmanna til ráðherrans um að setjast yfir málið í rólegheitum og taka það af dagskrá á meðan.