145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú var ég á fundi utanríkismálanefndar þegar þetta var tekið út. Þar kom Þórir Guðmundsson og ræddi við nefndarmenn, sem var mjög gott. En það hefur ekkert verið rætt í nefnd síðan þá eða hér í þingsölum, alla vega ekki við stjórnarmeirihlutann, hvaða aðrir kostir koma til greina. Aðrir kostir sem koma til greina, eins og komið hefur fram, er það að verkefnin færu flest yfir til ÞSSÍ og fari í þessa stóru stofnun.

Annar möguleiki er sá að flytja stofnunina inn í ráðuneytið án þess þó að leggja hana niður. Það er sú leið sem aðrir hafa verið að fara, í Danmörku til dæmis. Aðspurður að því hvers vegna Þórir Guðmundsson komst að þessari niðurstöðu þá nefndi hann að þetta væri það sem aðrir væru að gera. En þessi útfærsla er ekki það sem aðrir eru að gera. Það sem aðrir eru að gera, alla vega í Danmörku og að mig minnir í Noregi, er að setja stofnunina inn í utanríkisráðuneytið án þess að leggja hana niður. Það er alveg tilefni til að ræða þetta, þar á meðal í nefnd milli umræðna.