145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:23]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það væri í sjálfu sér fullt tilefni til að taka málið aftur til umræðu innan hv. utanríkismálanefndar og reyna að freista þess að finna sátt á grundvelli leiða sem Þórir Guðmundsson sagði á fundi nefndarinnar að væru jafn gildar þeirri sem hæstv. ráðherra vill fara. Það eru líka fleiri tilefni til þess.

Það kom mjög skýrt fram í máli hæstv. ráðherra hér áðan að hann eða embættismenn hans hafa misskilið verulega hluta af áliti DAC-nefndarinnar svokölluðu. Hæstv. ráðherra sagði að þar hefðu komið ábendingar um að skoða þyrfti fyrirkomulag þróunarsamvinnu með það fyrir augum að breyta því hugsanlega. Það er rétt að því marki að það var lagt til á grundvelli þess sem þá var veruleikinn, að það ætti að stórauka fjárframlög til þróunarsamvinnu. Það var með tilliti til þess, en það varð ekki. Það er ekki ætlun hæstv. ráðherra miðað við áætlunina sem hann lagði fram í fyrra en var aldrei rædd (Forseti hringir.) þannig að ég held að það sé fullt tilefni að kalla málið til nefndar til að fara í þaula yfir það því að allt teiknar sig upp til þess að (Forseti hringir.) greinargerðin og hinar einu röksemdir hæstv. ráðherra fyrir þessu máli haldi ekki, (Forseti hringir.) þær séu byggðar á hrapallegum misskilningi.