145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Vera einlæg og heiðarleg í því að rífast um málið, segir hv. formaður utanríkismálanefndar. (Gripið fram í.) Það er stjórnmálamaðurinn sem hefur farið mikinn um nauðsyn þess að bæta stjórnmálamenningu og ræða saman milli flokka og byggja verkpólitískar brýr, en hefur nú feril sinn sem formaður utanríkismálanefndar á því að segja sundur þann góða frið sem hefur verið um þróunarsamvinnu um langt árabil.

Ég verð að segja vegna orða þingmannsins um málsmeðferðina að ég sat á nefndarfundi sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar og var kallaður af þeim fundi vegna uppnáms í utanríkismálanefnd þar sem nefndarmenn minni hlutans voru beittir fullkomnu ofríki og urðu að grípa til 2. mgr. 15. gr. þingskapalaga til að ná fram rétti sínum á fundinum. Ég vísa til bókunar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á fundi nefndarinnar nefndan föstudag um það að málsmeðferð væri hvergi nærri lokið. Ég hvet til þess að menn geri (Forseti hringir.) eins og gert var í kerfisáætlun, geri hlé á umræðunni, fari yfir málið utan þingsalar og leiti sátta og sameiningar í þessum málaflokki á nýjan leik.