145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég held að það væri hæstv. ráðherra til sóma að setja sig núna í samband við forseta í samráði við hv. formann nefndarinnar og óska eftir hléi á þessari umræðu. Ég held að það væri fyrsta skrefið. Síðan ætti hann að boða til fundar í utanríkismálanefnd, eftir atvikum með fleiri aðilum úr þinginu, og heyra í fólki hvort það telji flöt á sameiginlegri niðurstöðu í málinu. Ef í ljós kemur að svo er ekki hefur að minnsta kosti sá fundur verið haldinn.

Það sem ég sakna er að við erum komin á þriðja dag í mjög langri umræðu en erum ekki enn byrjuð að tala saman. Við í stjórnarandstöðunni höldum hér ræður og köllum eftir svörum. Þau eru nokkuð stöðluð, þau breytast ekki frá einu skipti til annars, þau dýpka ekki og menn eru ekki að hlusta. Hæstv. ráðherra talaði sérstaklega um það áðan, og þá ekki við sjálfan sig, að það væri gott að hlusta, það væri mikilvægt. Ég er sammála því en það er ekki síst mikilvægt að gera það í þessu efni.

Ég get ekki neitað því að ég sit uppi með þá tilfinningu að hér sé fiskur undir steini. Það er eiginlega algjörlega óskiljanlegt að stjórnarmeirihlutinn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, 38 þingmenn, skuli leggja svona mikla pólitíska áherslu á þetta mál. Það er eiginlega algjörlega óskiljanlegt og þess vegna ágerist sú tilfinning eftir því sem umræðunni vindur fram að hér sé fiskur undir steini.