145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú nokkuð „grinagtig“ spurning. Ég held að ég verði nú að taka henni þannig því að það væri kúnstugt ef ég svaraði henni játandi. Hins vegar vil ég segja varðandi stjórnarskrárvinnuna að þar er stjórnarskrárnefnd að störfum. Hún er þverpólitísk, hún vinnur núna á yfirstandandi kjörtímabili. Þar vinnur fulltrúi Vinstri grænna af fullum heilindum og ég vona að það gildi um alla fulltrúa í þeirri nefnd. Ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um að það mál sé í góðum farvegi og við sjáum vonandi bráðum og fyrr en síðar einhverja niðurstöðu í því þannig að þingið geti glímt við þær tillögur sem nefndin skilar af sér. Varðandi Þróunarsamvinnustofnunarmálið spyr hv. þingmaður: Bíddu, er þetta slíkt mál að það sé ekki bara hægt að klára það í þinginu?

Ég spyr hv. þingmann á móti: Er þetta slíkt mál að hv. þingmaður telji mikla hættu fólgna í því að freista þess að ná þverpólitískri sátt í því í ljósi þess að hér er um viðkvæman málaflokk að ræða og auk þess málaflokk sem hingað til hefur verið stýrt með þverpólitískri nálgun og allir utanríkisráðherrar hingað til hafa gætt þess að þróunarsamvinnumál væru unnin í sátt?