145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:33]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú þannig gerður að ég vil helst ná sátt í öllum málum. Ég get hins vegar alveg skilið að menn séu ekki sammála þessu og finnist óþarfi að vera með þetta og allt það, gott og vel. Ég undrast samt að gerð sé krafa um sátt og að 40 klukkustundum sé eytt í málþóf um þetta mál af því að um það er ekki pólitísk sátt. Mér finnst málið ekki þess eðlis. Mér fannst hins vegar stjórnarskráin á síðasta kjörtímabili þess eðlis að mikilvægt væri að um það mál næðist sátt. En samt fannst þeim sem stjórnuðu á síðasta kjörtímabili, og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir tilheyrði þeim meiri hluta, ekkert tiltökumál að knýja fram þá breytingu með einföldum meiri hluta af miklu afli. (ÖS: Var það ekki málþóf þá?) (Gripið fram í.) — Jú, það var málþóf þá, en ég skil það. Ég hefði alveg skilið að þið hefðuð talað í 40 klukkutíma, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, ef meiri hlutinn væri hér að gjörbreyta stjórnarskránni í algjörri ósátt við minni hlutann, ég hefði alveg skilið það. Ég skil það hins vegar ekki þegar við erum með mál eins og þetta … (Gripið fram í: Komdu í stjórnarandstöðu.) — Einhvern tímann geri ég það kannski, en þetta er mér hins vegar alveg óskiljanlegt. Ég held að þetta mál sé ekki þess eðlis og mér finnst skrýtið að heyra það úr munni þeirra sem ráku stjórnarskrármálið á síðasta kjörtímabili með þeim hætti sem það var gert, að þeir telji algjörlega nauðsynlegt að þetta mál sé afgreitt í fullri sátt.