145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef nú gaman af rökræðum, en mér finnst kúnstugt að reyndur málflytjandi og fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins (Gripið fram í.) fari fram með rökræðu með þessum hætti og fari að tala um eitthvert allt annað mál. Við erum alls ekki að tala um stjórnarskrána og þaðan af síður að tala um síðasta kjörtímabil. Við erum bara alls ekki að tala um þau mál. (Gripið fram í.) Við erum ekki að tala um að fólk afsali sér réttinum til þess að ræða mál og hafa uppi ágreining í málum vegna þess að hv. þingmaður er þeirrar skoðunar að einhvern tímann í fyrri lífum viðkomandi þingmanna hafi þeir ekki farið rétt með vald sitt. Hann getur alveg haft þá skoðun, það er allt í lagi með það, en hann sviptir ekki viðkomandi þingmenn réttinum til þess að ræða og setja fullan þunga í að andmæla því að hér sé þróunarsamvinnumálum hleypt í ófrið á Íslandi í fyrsta sinn. Það skulum við ræða og við skulum ræða það afmarkað, virðulegi forseti.

Ég bið hv. þingmann að endurskoða nálgun sína í rökræðum. Það kann að vera að þetta virki í einhverjum málflutningi gagnvart einhverjum dómstólum, en þetta á ekki að virka á Alþingi.