145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:52]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður biblíufestan þingmann eins og mig þegar hv. þm. og formaður VG sáldrar hér yfir þingheim tilvitnunum í hina helgu bók. Ég er algjörlega sammála öllum meginreglum sem þar koma fram.

Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni áðan það sem gerðist í Bretlandi. Það er auðvitað alveg með ólíkindum að þegar til valda koma íhaldsstjórnendur, forusta mjög hægri sinnaðra manna, þá gefur hún í hvað varðar þróunarsamvinnu. Ég hef sagt mörgum sinnum að ég ber mikla virðingu fyrir forsætisráðherra Breta fyrir þá sök að hann lagði til dæmis í alveg gríðarlega mikla bólusetningarherferð í Afríku sem talin er hafa bjargað tugþúsundum barna frá dauða. Það var fallega gert. Það var örlátt, það var í algerri andstöðu við hina efnahagslegu þróun þar í landi. Það er merkilegt hvernig velsældin og aukin hagsæld hefur áhrif á þingheim. Á meðan við vorum í kreppunni 2011 samþykktum (Forseti hringir.) við þróunarsamvinnuáætlun sem gerði ráð fyrir miklu meiri framlögum (Forseti hringir.) en nú eru í dag. En um leið og ný ríkisstjórn tekur við og horfir framan í vaxandi ríkidæmi þá skrúfar hún til baka. (Forseti hringir.) Hvernig má það vera?