145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Málið er að þróunarsamvinna er ekki bara eitthvert dútl. Við hinn endann er fólk sem þarf virkilega á stuðningi að halda. Þessi stuðningur hefur verið veittur með mjög góðum og öflugum hætti af hálfu Þróunarsamvinnustofnunar. Hvers vegna er það? Jú, það er vegna þess að þróunarsamvinna er fag sem fólk hefur sérhæft sig í og innan Þróunarsamvinnustofnunar er samankomin alveg gríðarleg þekking. Það hafa verið gerð alveg gríðarleg mistök oft og tíðum í gegnum söguna í þróunaraðstoð. Það eru mistök sem menn vilja ekki endurtaka. Þess vegna er þetta viðkvæmur málaflokkur. Það er hægt að hafa gríðarlega neikvæð áhrif á samfélagsgerðir og heilu þjóðirnar með vondri þróunaraðstoð. Það er ekki staður sem við viljum vera á. Þess vegna hafa menn byggt utan um (Forseti hringir.) þetta með þeim hætti sem þeir hafa gert, hafa byggt sérstakar stofnanir til þess að halda þekkingunni þar. Þessi stofnun hefur verið sérstaklega lofuð fyrir það hversu (Forseti hringir.) vel henni hefur gengið í því að vera sveigjanleg og hversu vel henni gengur í því að vinna með heimamönnum.