145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka svo djúpt í árinni að ég telji að þessi verkefni fari að fjara út. Ég efast ekki um að metnaður verði áfram til staðar í utanríkisráðuneytinu til að sinna þessum málum vel. Ég tel að vissulega sé fagmennska í utanríkisráðuneytinu, það er enginn að efast um það, en það er kannski ekki sambærileg fagmennska og er til staðar innan Þróunarsamvinnustofnunar. Menn verða að bera virðingu fyrir því.

Það hefur skapast mikill mannauður innan Þróunarsamvinnustofnunar og mér finnst ekki gott að verið sé að þynna það út. Ég tel að menn eigi að einhenda sér áfram í sérstakri stofnun í þetta brýna verkefni og ekki eigi að draga þetta inn í ráðuneytið. Þar eru ótalmörg önnur verkefni sem menn eru að sinna. Ég tel að þar gætu önnur verkefni skyggt á þessi verkefni og þetta yrði kannski hálfgerð naglasúpa, það er kannski ekki rétt að segja það en stundum gæti það jafnvel orðið þannig. Menn sjást ekki alveg fyrir með það þegar mörg önnur verkefni eru þar til umfjöllunar.

Stjórnsýslulega er þetta mjög slæmt og það er verið að taka til hliðar eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart Þróunarsamvinnustofnun. Eins og þessu er stillt upp, að einhverjir ónefndir aðilar eigi að sjá um óháða úttekt og eftirlit með þessum (Forseti hringir.) fjármunum — það er ekki boðlegt að ekki sé skýrara kveðið á um það hvernig eftirlitið eigi að vera með öllum þeim fjármunum sem þarna eru undir.