145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er nú þetta sem er gagnrýnt, það hefur komið fram gagnrýni frá aðilum eins og ASÍ til dæmis. Ég tel að sú gagnrýni sem kom þaðan á þessi mál hafi ekki verið rædd nógu vel í utanríkismálanefnd. Vissulega er í ráðuneytinu ákveðin þekking, en alltaf er hætta á því að aðrir hagsmunir fari að blandast saman eins og viðskiptahagsmunir. Hver er líka verkstjóri? Við vitum að forstöðumaður núverandi Þróunarsamvinnustofnunar er skipstjóri á sínu skipi og er verkstjóri yfir því hvernig farið er með þá fjármuni og hefur yfirsýn yfir það. En hvernig verður það í ráðuneytinu? Hver verður þar ábyrgðaraðili og heldur utan um að ekki sé verið að slaka á taumunum heldur að gefa í og berst fyrir fjármunum til þessa málaflokks?

Hæstv. ráðherra talaði hér áðan um að það yrði alveg nægt gagnsæi með því hvernig fjármunir skiptist, þeir sem koma inn í ráðuneytið, til þessa málaflokks og á hverjum fjárlagalið kæmi fram hve háir fjármunir væru til þess. En það er ekki nægjanlegt. Með því að hafa þetta í sjálfstæðri stofnun er miklu meiri slagkraftur til að vinna að því að ná meiri fjármunum inn í þessi brýnu verkefni og líka til að fylgja þeim faglega úr hlaði svo að þeir fjármunir nýtist sem best fyrir þá sem á þurfa að halda.