145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:29]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir talar eins og margir aðrir stjórnarandstæðingar, að engin rök séu fyrir þessari breytingu. Þá veltir maður auðvitað fyrir sér hvort þeir stjórnarandstæðingar sem hafa tekið til máls hafi ekki lesið athugasemdirnar með frumvarpinu. Þar segir berum orðum:

„Þróunarsamvinna er ein af meginstoðum utanríkisstefnu Íslands og einn stærsti einstaki málaflokkurinn sem ráðuneytið sinnir. […] Með því að færa starfsemi ÞSSÍ inn í ráðuneytið er verið að tryggja að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands, auk þess sem íslensk stjórnvöld tali þá einni röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi.“

Síðan er sérstakur kafli um samlegðaráhrif og hagkvæmni, þar segir:

„Með því að færa framkvæmdina á eina hendi er verið að einfalda skipulagið. Betri heildarsýn mun nást yfir málaflokkinn og stefnumótun verða markvissari þegar um einn ábyrgðaraðila er að ræða. […] Með því að öll þróunarsamvinna sé á einni hendi er unnt að setja aukinn kraft í verkefnin, efla sveigjanleika og samhæfingargetu og koma í veg fyrir skörun á stefnumótun og framkvæmd.“

Þarna er verið að tala um hagkvæmni og samlegðaráhrif. Mér sýnist að þessi ágæta stofnun, Þróunarsamvinnustofnun, sé komin í flokk hjá stjórnarandstæðingum með ÁTVR og RÚV. Það er eins og sumt megi bara ekki hreyfa þótt menn bendi á augljósa hagkvæmni eða möguleika á hagkvæmni. Ég verð því að spyrja: Er hv. þingmaður að hafna því að þegar verkefnin eru svona á báðum stöðum, að hagkvæmni fylgi ekki í því eða möguleiki á því að hafa þetta á einni hendi? Eða horfa menn þannig á (Forseti hringir.) skattgreiðendur að það skipti engu máli hvernig fjármunum er varið bara ef stofnunin fær að lifa? (Forseti hringir.) Formið skiptir ekki máli. Það er hvernig við nýtum peningana.