145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að vona að hæstv. utanríkisráðherra sé nálægur því að svo mikið var beðið um nærveru hans. Nú eru aðstæður mínar þannig að ég verð að ljúka máli mínu á fimm mínútum af því að hæstv. ráðherra var ekki mættur hér þegar ég var látinn, herra forseti, halda seinni aðalræðu mína í þessari umræðu að honum fjarstöddum.

Ég ætla því að vinda mér beint í þær spurningar — eða má ég, herra forseti, gera hlé á máli mínu þannig að tíminn dragist frá og það verði kannað hvar hæstv. utanríkisráðherra er? Mér er alveg nóg boðið, það var ætlunin að hæstv. ráðherra sæti hér í salnum og tæki þátt í umræðunni.

(Forseti (ÞorS): Forseti verður við því.)

Þá stoppum við klukkuna.

(Forseti (ÞorS): Forseta hafa borist orð um að utanríkisráðherra hafi yfirgefið húsið um stundarsakir og býður því hv. þingmanni upp á það að hann verði settur á mælendaskrá síðar þegar hæstv. utanríkisráðherra hefur komið aftur til fundar.)

Ég þigg það, herra forseti, en þætti eðlilegast að fresta umræðunni þangað til hæstv. ráðherra er kominn aftur á staðinn. Hæstv. forseti veit vel hvernig aðstæður hafa verið hér, að við höfum óskað eftir því og treyst á að úr því að hæstv. ráðherra er nú loksins kominn á svæðið þá yrði hann við umræðuna.