145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég skil hv. 4. þm. Norðaust., Steingrím J. Sigfússon, mjög vel, að hann vilji halda ræðu sína sem hann hefur fimm mínútur til núna að viðstöddum hæstv. utanríkisráðherra. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur margoft í tuttugu mínútna ræðu sinni og tíu mínútna ræðu óskað eftir því að svo væri. Og þegar kemur nú fram að hæstv. utanríkisráðherra er farinn úr húsi og getur ekki hlustað á hv. þingmann þá held ég að ekki sé hægt að gera annað en að fresta fundi í fimm eða tíu mínútur meðan utanríkisráðherra snýr við og kemur aftur hingað í þinghúsið.

Nú veit ég ekki hver er næstur á mælendaskrá, hvort það er ég eða einhver annar, en ég segi fyrir mitt leyti að í ræðu minni á eftir mun ég óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra sé hér til staðar (Forseti hringir.) vegna þess að ég hyggst fara í gegnum þær umsagnir sem komið hafa fram um málið, m.a. frá Rauða krossi Íslands, sem eru miklar athugasemdir við sjö greinar frumvarpsins.