145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:03]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram hef ég náð samtali við hæstv. utanríkisráðherra og hef í sjálfu sér ekkert frekar við hann að segja um þetta mál. Ég náði að spyrja hann út í það sem mig vanhagar um að vita af hans hálfu og niðurstaðan var mjög skýr. Hæstv. ráðherra gat ekki svarað því hvað liggur því til grundvallar að fella að velli með einu höggi, bylmingshöggi raunar, heila ríkisstofnun. Þá liggur það bara fyrir. Mér finnst að það sé í sjálfu sér niðurstaða. Það er sömuleiðis algerlega ljóst að hæstv. ráðherra hefur flutt þetta frumvarp án þess að hafa skilið til fulls þann grundvöll sem hann taldi sig standa á, sem var skýrsla þróunarsamvinnunefndar OECD, DAC-nefndarinnar svokölluðu. Ég held að það sé alveg hægt að slá því föstu eftir þessa umræðu eða þátttöku hæstv. ráðherra í henni að hæstv. ráðherra hefur annaðhvort ekki lesið þá skýrslu, hann hefur misskilið hana eða hér er verið að afflytja það sem þar stendur í.

Rök hæstv. ráðherra hafa verið tvenns konar. Í fyrsta lagi er greinargerð hæstv. ráðherra full af ýjunum og dylgjum um það að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi staðið sig illa. Það er talað um nauðsyn þess að hagræða og það er ekki hægt að gagnálykta annað en að í því felist að þar hafi verið eytt um of, a.m.k. ætti sá maður sem hér hefur frekast sveiflað brandi sínum í kvöld, hv. þm. Brynjar Níelsson, og hefur verið hér fremur í gervi fyrrverandi formanns Lögmannafélagsins heldur en stjórnmálamanns, alla vega að sjá rökvillurnar sem í því felast. Ekkert af því sem hæstv. ráðherra sagði í kvöld þegar hann tók þátt í umræðunni felldi nokkrar rökfræðilegar stoðir undir þær fullyrðingar sem koma fram um nauðsyn þess að breyta þurfi stofnuninni. Þær fullyrðingar eru að vísu ekki í gadda slegnar í greinargerð eða í framsögu hæstv. ráðherra. Miklu fremur eru þær settar fram þannig að ég hef leyft mér að kalla þær dylgjur. Það er talað þar um að það þurfi að koma í veg fyrir tvíverknað. Það er talað um að Þróunarsamvinnustofnun þurfi að ganga í takt við utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar og eins og ég gat um áðan er talað um að það þurfi að hagræða, þótt hæstv. ráðherra hafi allra manna gleggst flutt okkur þau boð að þetta feli ekki í sér neinn sparnað.

Hins vegar hefur hin röksemdin sem hann hefur aðallega látið málflutning sinni hvíla á, og það skiptir mig meira máli, verið sú að í skýrslu þróunarsamvinnunefndar komi fram ábendingar um að nauðsynlegt sé að breyta stofnanafyrirkomulagi þróunarsamvinnu á Íslandi.

Í fyrsta lagi kemur þetta hvergi fram. Meginspurning mín til hæstv. ráðherra fyrr í kvöld var: Hvar stendur þetta í áliti umræddrar nefndar? Hæstv. ráðherra gat ekki svarað því.

Í öðru lagi byggir þetta á fullkomnum misskilningi vegna þess að í álitinu kemur það algerlega skýrt fram að nefndin horfir þá fram til þess að það eigi að margfalda framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu á næstu tíu árum og andspænis þeim veruleika spyr nefndin í áliti sínu hvort ekki sé tímabært að Íslendingar skoði hvort núverandi fyrirkomulag svari þeim þörfum. En eins og við vitum féll hæstv. ríkisstjórn frá því að hækka framlög til þróunarsamvinnu í þeim mæli sem Alþingi samþykkti, hefur að vísu lofað að koma hér með áætlun en hún er ekki enn rædd á Alþingi Íslendinga.

Í þriðja lagi, og nú ætti hv. þm. Brynjar Níelsson að leggja við hlustir af því að hann er vanur því að þráspyrja þá sem sitja fyrir réttinum, þá hafði hæstv. ráðherra sagt það að DAC-nefndin og þróunarsamvinnunefndin fjallaði aldrei um stofnanafyrirkomulag og rammann þar í kring en samt segir hann að í sama áliti, sem hann segir að fjalli ekki um ramma stofnananna, séu ábendingar um að breyta því. Þannig rekur hvert sig á annars horn í röksemdafærslu hæstv. ráðherra.

En það sem hefur glatt mig í þessari umræðu er hins vegar þátttaka hv. þm. Brynjars Níelssonar. Hún nægir mér þó að hæstv. ráðherra sé ekki staddur hér og þó að formaður utanríkismálanefndar sé ekki heldur í húsi. Hv. þm. Brynjar Níelsson hefur átt orðastað við þingmenn og það er mjög athyglisvert að sjá hvernig fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins hagar máli sínu, því að hann talar ekki hér sem stjórnmálamaður. Hann talar fyrst og fremst sem skilgreinandi á umræðu og hann hefur tínt til rök sem hann segir að aðrir hafi fært, eins og hæstv. ráðherra, en í öllum þeim stuttu ræðum og andsvörum sem hv. þm. Brynjar Níelsson hefur flutt í kvöld hefur aldrei komið fram stuðningur af hans hálfu við málið. Hann talar í hlutverki sínu sem starfandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins við þessar umræður, a.m.k. núna, þannig að ég geng út frá því sem vísu að hv. þingmaður tali fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Þá liggur það fyrir að starfandi formaður þingflokks sjálfstæðismanna, sá hinn eini sem tekur þátt í umræðunni, hefur ekki sagt aukatekið orð til stuðnings þessu frumvarpi. Hann hefur að vísu flutt þá lögmætu skoðun sem má kannski túlka þannig að honum sé sama hvorum megin hryggjar ÞSSÍ liggur þegar hann vaknar á morgnana. Það er fullkomlega lögmæt skoðun.

Ég hef allt aðra skoðun. Ég er þeirrar skoðunar að þróunarsamvinnan sé burðarás í utanríkisstefnunni. Mér þykir vænt um ÞSSÍ vegna þess að ég hef reynt hana að góðum verkum. Mér þykir vænt um hana vegna þess að ég sé hvernig hún fer vel með fé og ég hef séð þau litlu og stóru kraftaverk sem hafa hlotist af starfi stofnunarinnar og við þær aðstæður að við erum með stofnun í höndunum sem er að vinna að mannúðarmálum, sem er að vinna að góðgerð, sem er að líkna fólki, sem er að hjálpa örbjarga héruðum til að brjótast til bjargálna, þá hlýtur maður að spyrja sjálfan sig: Hver er ávinningurinn af því að leggja að velli slíka stofnun, sem í mínum augum er ein af bestu stofnunum sem íslenska stjórnsýslan hefur yfir að ráða? Því gat hæstv. ráðherra ekki svarað en mig langar til að spyrja hv. þm. Brynjar Níelsson þessarar spurningar: Hver er ávinningurinn í augum hans af því að leggja stofnunina niður? Það hefur enginn talað um það að stofnunin standi sig ekki vel.

Formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem ekki er stödd við þessa umræðu núna, lýsti því yfir þegar hún mælti fyrir áliti meiri hlutans að stofnunin hefði staðið sig mjög vel, það væri ekkert að henni að finna. Hæstv. ráðherra var knúinn til að lýsa því yfir við 1. umr. málsins að hann gæti ekki fundið neitt athugavert við þessa stofnun. Það sem meira er, í hans eigin greinargerð kemur fram mikið lof um stofnunina og þar er beinlínis staðhæft að margítrekaðar úttektir af hálfu heimamanna og erlendra manna hafi leitt það í ljós að starfsemi stofnunarinnar sé óaðfinnanleg. Þessi orð má lesa í greinargerð með frumvarpinu sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram til að fella að velli stofnunina sem hann sjálfur gefur þennan lofsverða dóm. Og þá spyr maður auðvitað sjálfan sig: Til hvers er verið að fara í þetta ferðalag?

Allir fyrrverandi utanríkisráðherrar sem hafa komið að þessum málum, allar götur frá því að Ólafur Jóhannesson, einn af helstu leiðtogum Framsóknarflokksins, hratt ÞSSÍ úr vör fyrir einum 40–50 árum, hafa lagt sig í framkróka um að skapa þverpólitíska sátt um þróunarsamvinnu. Ég rifja það upp að þegar einn tiltekinn ráðherra, reyndar úr Framsóknarflokknum líka, þetta var Valgerður Sverrisdóttir, kom fram með svipaðar hugmyndir og er að finna í þessu frumvarpi um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og taka verkefnin inn í ráðuneytið, þá hlustaði viðkomandi ráðherra á þingið. Hún mætti harðri mótspyrnu á þinginu en hún tók mið af því og frumvarpið var látið niður falla. Hvernig stendur á því að hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson vill beinlínis skapa ófrið um málið? Ég spyr: Hvað veldur því að hæstv. ráðherra vill ekki taka í útrétta sáttarhönd sem hér hefur komið frá þingmönnum Samfylkingarinnar, þingmanni Pírata, þingmanni VG um að skoða aðrar leiðir, hugsanlega slá af því sem hann vildi helst sjá en fara einhvern þeirra þriggja valkosta sem Þórir Guðmundsson setur fram í skýrslu sinni. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson skildi mál skýrsluhöfunda þannig fyrir utanríkismálanefnd að hann teldi þá alla jafn gilda. (Forseti hringir.) Það mundi réttsýnn ráðherra gera til að reyna að ná niðurstöðu sem væri þokkaleg friður um. En hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) kýs heldur ófrið en frið í þessum málum. Það kemur engum á óvart sem hefur fylgst með framkomu hans í öðrum málum óskyldum þessu.