145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. Össur Skarphéðinsson ganga fulllangt í að mæra hv. þm. Brynjar Níelsson, sem hv. þingmaður kallar gjarnan fyrrverandi formann Lögmannafélagsins.

Hv. þm. Brynjar Níelsson blandaði sér í umræðurnar, aðallega um hagræðingarrökin, og vitnaði til greinargerðar frumvarpsins um að þar væri tekið nokkuð fast í árinni hvað varðaði það að af þessu hlytist mikið hagræði. Nú er það svo að í umsögn skrifstofu opinberra fjármála kveður hins vegar við allt annan tón. Þar er sagt að af þessu gæti leitt inn í framtíðina eitthvert hagræði. Það er allt og sumt.

Nú gerþekkir hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, þennan málaflokk og þá starfsemi sem utanríkisráðherra í meira og minna fjögur til fimm ár. Ég vil því spyrja fyrrverandi ráðherra: Í hverju sæi hann fyrir sér að gæti verið eitthvert hagræði fólgið? Ég hef verið að fara yfir þetta í huganum. Miðað við það sem ég þekki til sameiningar embætta og stofnana og þegar við vorum að sameina lítil ráðuneyti, þá var tiltölulega auðvelt að reikna hagræðið af því að fækka um einn ráðherra, einn ráðuneytisstjóra, einn bílstjóra, einn ritara í yfirstjórn lítils ráðuneytis og sameina það í eitt.

Þegar við vorum að sameina skattinn, níu skattumdæmi með níu skattstjórum, níu opinberum embættismönnum undir embætti eins ríkisskattstjóra, var auðvelt að sýna fram á hagræðingarrökin. Hér á ekkert slíkt við. Hér er engin yfirbygging sem hverfur, nema þá einn forstjóri. Er það ekki þannig? Eða hvað segir hv. þingmaður um þetta? Hvorum eigum við að trúa, skrifstofu opinberra fjármála eða dómgreind hv. þm. Brynjars Níelssonar í þessum efnum?