145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil segja það til varnar hv. þm. Brynjari Níelssyni að ég lít á hann sem viti borna veru sem hægt er að eiga orðastað við. Hv. þingmaður hefur að vísu stjórnmálaskoðanir sem oft brjótast fram með fullöfgakenndum hætti að mínu viti, einkum og sér í lagi þegar hann skrifar á fésbók sína, en hann er hins vegar alltaf reiðubúinn til að hlusta á rök, ég hef reynt hann að því.

Ég tók auðvitað eftir því að hv. þm. Brynjar Níelsson leitaði fanga í greinargerðina. Það er þannig, eins og ég veit að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur komið auga á, af því að hann hefur þaullesið þetta allt, að ákveðin þversögn er á milli greinargerðarinnar, eða tónsins þar að minnsta kosti, og hins vegar niðurstöðunnar sem kemur í áliti fjárlagaskrifstofunnar. Greinargerðin er skrifuð meðal annars í kringum þau rök að þetta geti leitt til einhvers konar aukinnar hagkvæmni. Maður les út úr því að þeir sem skrifuðu greinargerðina hafi ætlast til þess að þetta leiddi til einhvers konar sparnaðar. Síðan eru þeir auðvitað slegnir kylliflatir eins og hverjar aðrar keilur þegar fjárlagaskrifstofan hefur farið sínum höndum um þetta. Niðurstaða hennar er sú að þetta leiði ekki til neins sparnaðar og þess vegna þarf hæstv. ráðherra að ítreka það og hann hefur gert það samviskusamlega.

Það sem meira er, hæstv. ráðherra hefur bókstaflega sagt að tímabundið kunni þessi breyting að leiða til einhvers konar kostnaðarauka. Hann hefur sagt að það geti verið að vegna flutningsskyldunnar og þess fyrirkomulags sem muni verða á þessu, að þá kunni að þurfa að fara af stað einhvers konar þjálfun starfsmanna í upphafi og það hlýtur náttúrlega að kosta eitthvað. Ég lít því svo á að hæstv. ráðherra hafi sýnt fram á það með máli sínu að þetta gæti leitt til kostnaðarauka.

Spurningu hv. þingmanns svara ég þannig: Þetta hefur engan sparnað í för með sér.

En ég vek eftirtekt á því að mér fannst hv. þm. Brynjar Níelsson haga máli sínu eins og lögmaður í réttarhaldi. Hann lagði öðrum skoðanir í hug og munn. Hann sagði aldrei að þetta væru sínar skoðanir og enn þá hefur hv. þingmaður (Forseti hringir.) ekki komið hingað og sagt að það væri sannfæring sín að rétt væri að skakast í þessari stofnun, svo ég vísi í orð hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar.