145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og þau ríma vel við það sem ég hef lesið út úr þessu máli, enda kemur það skýrt fram að ekki á að fækka mannskap við þessa breytingu, ekki á að rýma húsnæði, ekki verði samlegðaráhrif í gegnum húsnæðisþáttinn og þá er eiginlega ekkert eftir. Í stofnun sem er vel rekin, hefur úttektir upp á það að hún fer vel með fjármuni, er vel rekin og ekkert upp á það að klaga og þá held ég að sú röksemd sé hrunin til grunna og ég er algerlega sammála.

Þegar ég las greinargerð frumvarpsins fyrst fékk ég það á tilfinninguna að verið væri að reyna að selja manni það að af þessu yrði verulegt hagræði. Svo fletti ég upp á umsögn skrifstofu opinberra fjármála og þar hrynur það til grunna á mjög trúverðugan hátt. Þegar maður fer að velta málinu fyrir sér er miklu líklegra að til skamms tíma leiði af þessu aukinn kostnaður. Það er einfaldlega þannig því að svona umróti fylgir oft slíkt. Að einhverju leyti nýta menn biðlaunarétt, það þarf að þjálfa kannski upp nýtt fólk, skipulagsbreytingar og annað því um líkt þegar verið er að hræra til starfsmönnum mun væntanlega hafa það í för með sér frekar en hitt að röskun verður á starfseminni tímabundið og það kostar þá meira að koma þeim hlutum í lag. Ég tel því að það svari sér eiginlega sjálft, en gott að heyra álit hv. þingmanns.