145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:21]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir góða ræðu hér áðan. Hann hefur flutt margar góðar og eldheitar ræður um þetta málefni sem sýnir manni að honum er annt um þessa stofnun.

Það hefur margoft komið fram í ræðum um þetta mál, sem eru náttúrlega orðnar æðimargar frá því þetta var lagt fram fyrst í vor, að þetta er mjög góð stofnun. Þetta er vel rekin stofnun, hún hefur náð sér sjálf í sjálfsaflafé og verið vel rekin þannig að eftir er tekið. Og það er kannski það sem ég er mest hissa á.

Ég skal viðurkenna að þekking mín á þessari stofnun er ekki fullkomin frekar en á mörgu öðru en það sem ég hef alltaf upplifað í gegnum tíðina er að þetta er stofnun sem er að vinna að góðum málum. Við erum að hjálpa fólki í sárri neyð í fyrrum nýlenduveldum sem máttu þola kúgun og yfirgang vestrænna ríkja og Evrópuríkja. Þannig var kannski stofnað til þessa í fyrstu. Ríkin gátu ekki hjálpað sér sjálf eftir að Evrópuríkin ákváðu að draga sig út úr nýlendunum þannig að þessari þróunaraðstoð var komið á fót til að hjálpa þessu fólki.

Ég hef aldrei heyrt annað en vel talað um þessa stofnun. Hún hefur alltaf staðið sig mjög vel og verið Íslandi til sóma. Ég hef heldur ekki heyrt nein haldbær rök fyrir því hvers vegna eigi að leggja þessa stofnun niður og setja hana inn í ráðuneytið. Það kemur fram í nefndaráliti að þetta hefur verið margreynt áður en fyrrverandi utanríkisráðherrar hafa ekki gert það.

Í umsögn frá ASÍ segir með leyfi forseta:

„Alþýðusambandið telur að með því að færa framkvæmd þróunarsamvinnu yfir á eina hendi, þ.e. alfarið á ábyrgð utanríkisráðuneytis dvíni sá faglegi árangur sem ÞSSÍ hefur náð. Hætta er á að diplómatískar áherslur fari að blandast inn í þróunarsamvinnuna — þ.e. að framlagsríki fari að reka hana með eigin hagsmuni að leiðarljósi en ekki hagsmuni fátækra ríkja eingöngu.“

Hvað á ASÍ við með þessu? Getur hv. þingmaður skýrt það út fyrir mér?