145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:31]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er fullkomlega rökréttur valkostur að taka stofnunina og flytja hana í heilu lagi inn fyrir vébönd utanríkisráðuneytisins og láta hana starfa áfram. Það hafa menn gert í nágrannalöndunum með góðum árangri. Hv. þingmaður spyr mig hvað ég mundi gera í sporum hæstv. utanríkisráðherra. Við þessar aðstæður mundi ég fara þá leið, og það byggi ég á mestan part á lestri skýrslu Þóris Guðmundssonar og rökræðum við hann á fyrri stigum málsins, m.a. í utanríkismálanefnd, að skoða vel ábendingar DAC-nefndarinnar sem segir að íslenska þróunarsamvinnan skeri sig frá því sem gerist með öðrum þjóðum að einu leyti; þar sé mjög hátt hlutfall tvíhliða aðstoðar, tvíhliða þróunarsamvinnu, enn þá ráðstafað innan utanríkisráðuneytisins. Í skýrslu Þóris er sá kostur reifaður að fara þá leið að taka það út úr ráðuneytinu og flytja til Þróunarsamvinnustofnunar og styrkja hana þannig. Við þær aðstæður yrði öll tvíhliða samvinnan innan þeirrar stofnunar. Þá verða skilin algjörlega skýr millum ráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar. Það mundi ég gera við þessar aðstæður.

Það er algjörlega hárrétt sem hv. þingmaður segir að stofnunin er vel rekin. Hún er ekki bara vel rekin, hún er fyrirmyndarstofnun, sennilega ein af bestu stofnunum íslenska lýðveldisins í dag. Hún nýtur verulegrar aðdáunar erlendis. Ég var stoltur sem íslenskur stjórnmálamaður, sem Íslendingur, þegar ég varð þess var að miklu stærri stofnanir hjá miklu stærri ríkjum töldu hana bera af mörgum öðrum stofnunum. Þær æsktu leyfis til þess að fá að kynna sér náið verk Þróunarsamvinnustofnunar vegna þess (Forseti hringir.) að talið var að hægt væri að (Forseti hringir.) læra verulega mikið af henni. Það finnst mér skipta mjög miklu máli. Hvers vegna að breyta stofnun (Forseti hringir.) sem stendur sig ákaflega vel?