145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:35]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Það er hugsanlegt að nábýlið mundi leiða til þess sem hæstv. ráðherra taldi að væri einn af ávinningum breytingarinnar, þ.e. hann sagði hér í kvöld, hann hafði ekki sagt það áður svo ég hefði heyrt, að betri yfirsýn yfir málaflokkinn væri eitt af því sem hann æskti að yrði afleiðing þessarar breytingar. Það má vel vera að við þær aðstæður yrði betri yfirsýn yfir málaflokkinn.

Annað gerðist líka. Eins og ég hef skilið þann valkost mundi flutningsskyldan ekki gilda um starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar. Með öðrum orðum; þeir yrðu innan ráðuneytisins, innan vébanda stofnunarinnar, en þeir flyttust ekki millum pósta í útlöndum. Það þýddi að sérhæfingin, sem verður óhjákvæmilega til innan svona stofnunar, og hin sérstaka reynsla mundi halda áfram og haldast, jafnvel hlaðast upp, en með því formi sem hæstv. ráðherra leggur til (Forseti hringir.) held ég að flestir séu sammála um að hún muni smyrjast miklu þynnra, (Forseti hringir.) verði grynnri, (Forseti hringir.) og það er mikill skaði.