145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér er þá ekkert að vanbúnaði að halda mína ræðu og leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra þó að ég hefði gjarnan viljað hafa til þess tíu mínútur en ekki fimm.

Ég ætla að reyna að hafa spurningar mínar fáar og skýrar í von um að þá komi frekar við þeim einhver svör eða tilburðir til svara. Fyrsta spurningin er ósköp einföld og eðlileg við svona aðstæður. Hún er þessi: Hvað er að, hæstv. ráðherra? Hvað er að? Hvaða vandamál sem uppi eru í starfseminni í dag er verið að leysa með þessum breytingum? Það hlýtur að vera einhver slík ástæða til staðar og ég vil gjarnan að ráðuneytið svari heiðarlega um það. Eru þarna á ferðinni einhver vandamál sem menn hafa trú á að þeir séu að leysa með þessu? Hver eru þau?

Í öðru lagi eru hin faglegu rök. Mér finnst lágmark að við fáum einhverja sannfæringu fyrir því að það séu einhver fagleg rök að sækja í þessar breytingar. Á hvern hátt verður hægt að standa faglegar og betur að tvíhliða þróunarsamvinnu en gert hefur verið að undanförnu og er gert í dag eftir þessar breytingar? Hvar eru hin faglegu rök? Þau hljóta að vera einhver, eða hvað?

Í þriðja lagi er auðvitað eðlilegt að ráðherrann fari yfir hin fjárhagslegu rök, sérstaklega vegna fullyrðinga í greinargerð með frumvarpinu þar um sem ekki fá síðan neina stoð í áliti skrifstofu opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Er ráðuneytið enn þeirrar skoðunar að þetta muni leiða til einhvers teljandi hagræðis, og þá hvenær? Eða er utanríkisráðuneytið orðið sammála fjármála- og efnahagsráðuneytinu um að það sé þá í besta falli eitthvað sem einhvern tímann í framtíðinni gæti skilað sér? Mér finnst skipta máli að þetta liggi skýrt fyrir. Það getur varla verið að það eigi að bjóða okkur upp á að afgreiða þennan þátt málsins í bersýnilegum ágreiningi milli tveggja ráðuneyta að þessu leyti ef hann er enn til staðar. Við vitum hvernig skrifstofa opinberra fjármála vinnur í þessum efnum. Hún hefur aðgang að öllum upplýsingum og hún er eini virkilega sérfróði aðilinn í landinu til að gera svona úttektir af því að það er hlutverk hennar að gefa kostnaðarumsagnir við mál og á þær er almennt treyst.

Fjórða og síðasta spurningin er um samþættingarrökin sem gert er hátt undir höfði í greinargerðinni. Þar finnst mér að við verðum að fá miklu betri útskýringar frá hæstv. ráðherra en við höfum fengið fram að þessu vegna þess að á bak við það liggur annað sem veldur mörgum áhyggjum og það er hið óeðlilega samkrull sem úr því getur sprottið milli annarra hagsmuna en þeirra einna að standa faglega og með óháðum hætti að þróunarsamvinnunni. Í hverju eru þessi samþættingarrök fólgin ef það á ekki að verða á kostnað þess að við stöndum áfram faglega og óháð að þessum þætti í okkar utanríkisstefnu? Tvíhliða þróunaraðstoð á að vera eingöngu á faglegum og óháðum forsendum, byggð á samstarfi við heimamenn og til þess að aðstoða þá með þeirra hagsmuni og samfélag í huga. Utanríkispólitískir, diplómatískir og viðskiptalegir hagsmunir Íslands eiga aldrei að hafa þar nein áhrif á. Það er nefnilega ekki bæði hægt að sleppa og halda. Oftast er það niðurstaðan að lokum þótt menn reyni oft hitt, a.m.k. í umræðum. Hvort á við? Eru það samþættingarrök og hvernig verða þau þá? Hvernig verður hagræðið af því öðruvísi en að það verði að einhverju leyti á kostnað þess að þróunarsamvinnan verði áfram sjálfstæð, óháð og fagleg?

Svo vil ég velta enn einu upp, og má kalla það fimmtu spurninguna, af því að engum hefur tekist að sýna fram á nein vandamál í starfrækslu Þróunarsamvinnustofnunar í dag. Hún fær þvert á móti mjög góða einkunn alls staðar þar sem borið er niður, hvort sem er fjárhagslega eða faglega. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er verið að leysa einhver önnur vandamál og eru það þá vandamál inni í ráðuneytinu? Er farin sú fjallabaksleið að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og færa það fólk og þau verkefni inn í ráðuneytið til að leysa einhver skipulagsmál eða mönnunarmál þar? Þegar maður fer að leita í huga sér að einhverri dulinni ástæðu velti ég þessari fyrir mér. (Forseti hringir.)

Og að lokum, herra forseti, ef ég skyldi ekki halda fleiri ræður við þessa umræðu sem gæti vel átt eftir að gerast, legg ég auðvitað til að málið gangi til nefndar á milli 2. og 3. umr.