145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyrði á orðum hv. þingmanns að hann liti svo á að það væri stórmál að leggja þessa stofnun niður. Mér finnst undarlegt að mönnum skuli finnast það stórmál að leggja niður stofnun sem hjá starfa örfáir menn þegar þeim er síðan öllum boðið að starfa áfram í ráðuneytinu við sama málaflokkinn. Ég á erfitt með að skilja það sem stórmál.

En af því að þetta er svona mikið stórmál þá vil ég spyrja þingmanninn, af því að ég hef áhuga á sagnfræði, hvort hann hafi ekki stutt það á síðasta kjörtímabili þegar Varnarmálastofnun var lögð niður með þeim rökum að það væri vegna hagræðingar og einföldunar í stjórnsýslunni, og þá væri auðvitað mjög eðlilegt að leggja þá stofnun niður. Verkefnin þar voru færð undir ráðuneytið og fleiri staði. Ég er ekki viss um að hv. þingmaður hafi verið svona stóryrtur þegar sú umræða fór fram.

En það sem er kannski enn verra er að á síðasta kjörtímabili skyldi dómsmálaráðuneytið hafa verið lagt niður. Það var mjög erfitt fyrir mig að horfa upp á þá þróun og verkefnin þar voru nánast sett inn í samgönguráðuneytið. Mér varð þungt fyrir hjarta þegar sá gjörningur átti sér stað. Það finnst mér miklu stærra mál en nokkru sinni það að leggja niður ÞSSÍ af því að hin faglega þekking hverfur ekkert. Hún fylgir inn í ráðuneytið. Þess vegna finnst mér þetta vera eiginlega minni háttar mál. Ég verð að nota tækifærið og … (Forseti hringir.) Ég kem kannski að því þegar ég kem hingað aftur af því að tíminn er búinn.